Undirskriftalisti

Responsive image

Líf án ofbeldis

Við undirrituð krefjumst þess að dómsmálaráðherra axli stjórnunarlega ábyrgð og tryggi öryggi barna og vernd gegn ofbeldi föður í réttarákvörðun um líf þeirra í forsjár- og umgengnismálum. Við krefjumst þess að sjónarmið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu virt í réttarákvörðun sýslumanna, dómara og dómsmálaráðuneytis og að börn eigi rétt til að hafa skoðun á sínum lífsaðstæðum og eigi rétt til verndar frá hverskyns ofbeldi. Við krefjumst þess að lagaframkvæmd sýslumanna og dómara sé í samræmi við þær áherslur sem sammælst hefur verið um í núgildandi barnalögum um aukið vægi ofbeldis við ákvörðun forsjár og umgengni. Í athugasemdum með frumvarpi til barnalaga sem varð að lögum kemur fram að líta verði á ofbeldi í víðum skilningi. Börnin eiga rétt samkvæmt lögum að njóta vafans ef einver vafi er. Við krefjumst þess að í forsjár- og umgengnismálum þar sem barn er í ofbeldishættu í samskiptum við föður hafi réttur barnsins til öryggis og verndar frá ofbeldi afdráttarlausan forgang umfram skyldu móður til að stuðla að samskiptum barnsins við föður sem beitir barnið eða aðra nákomna ofbeldi. Við höfnum því að lögð sé sú krafa á þolendur ofbeldis, mæður og börn, að dómur vegna ofbeldis yfir aðila í forsjár- eða umgengnismáli sé skilyrði fyrir því að lögfest skylda dómara og sýslumanns um mat á ofbeldishættu sé virt. Lögin eru skýr og gera ekki kröfu um að viðkomandi hafi hlotið dóm vegna ofbeldisbrota. Nánar: Mánudaginn 23. apríl árið 2018 sendu konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi í nánum samböndum og/eða innan fölskyldu frá sér #metoo-yfirlýsingu. Yfir 600 konur höfðu mánuðina á undan deilt reynslu sinni í lokuðum facebook-umræðuhópi. Í yfirlýsingu hópsins árið 2018 var megináhersla lögð á ósk um að konum sé trúað þegar þær greina frá ofbeldi og auk þess er óskað efir stuðningi samfélagsins við að skerpa á nokkrum veigamiklum atriðum. Meðal annars var lögð áhersla á að dómsvaldið, sýslumaður og sýslumannsfulltrúar, sáttafulltrúar, sérfræðingar í málefnum barna og þá sérfróðir matsmenn og aðrir sem koma að ákvörðunum um forsjá og umgengni fylgi þeim áherslum sem sammælst hefur verið um í lögum. Í dag, þann 2. október árið 2019 er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn ofbeldi (e.UN International day of Non- Violence https://unwomen.is/dagur-an-ofbeldis-mannlegt-fridarmerki-a-klambratuni/) og enn hafa engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu stjórnvalda eða ráðherra málaflokksins til að tryggja öryggi barna í ofbeldishættu við inngrip dóms- og framkvæmdarvaldsins inn í ákvörðun um líf þeirra. Það er reglan en ekki undantekningin að mæður sem greina frá áhyggjum sínum af ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum eru ekki teknar trúanlega. Þvert á móti eru áhyggjur þeirra notaðar gegn þeim í ákvörðun stjórnvalda, þrátt fyrir fyrirliggjandi gögn sem sýna fram á ofbeldi gegn þeim og börnunum, s.s. með veru þeirra í Kvennaathvarfinu og tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi. Sýslumenn og dómsmálaráðuneyti fella áfellisdóma yfir þeim og þær eru úrskurðaðar til að vera jákvæðar í garð föður heima hjá sér. Mæðrum sem greina frá ofbeldi er gert ókleift að vernda börn sín, frá ofbeldi og fyrir ákvörðun dóms- og framkvæmdarvalds í sifjamálum. Dómsmálaráðherra og ráðuneyti fer samkvæmt forsetaúrskurði með stjórn og ábyrgð í málum er varða: Mannréttindi og mannréttindasáttmála. Sifjarétt, þar á meðal: Málefni barna, nema barnavernd, þ.m.t. ættleiðingar og brottnám. Hjúskap. Í athugasemdum með frumvarpi barnalaga kemur fram að líta verði á ofbeldi í víðum skilningi. Börnin eiga rétt samkvæmt lögum að njóta vafans ef einver vafi er. Í barnalögum, nr. 76/2003 var vægi ofbeldis aukið við ákvörðun forsjár og umgengni. Samanber 34. og 47. gr. laganna þar sem lögfest var að við ákvörðun um forsjá eða umgengni beri að líta til þess hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi verið eða muni verða beitt ofbeldi. Áhyggjur móður af ofbeldishættu, gögn, vitnisburðir og upplýsingar þar að lútandi eiga að hafa vægi í mati sýslumanns og dómara á hagsmunum barnsins en á ekki að afskrifa sem„einhliða gagnaöflun móður“ eða „alvarlegar ásakanir móður á hendur föður“ eins og gert er í umgengnis- og forsjármálum í dag. Gögn frá fagaðilum, sérfræðingum í Barnahúsi, dómara og lögreglu í Barnahúsi, barnavernd, lögregluskýrslur um heimilisofbeldi, tilkynningar lögreglu til barnaverndar, skýrslur og greinagerðir frá læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, vitnisburðir og áhyggjur skóla og leikskóla af barni. Heimilisofbeldi og ofbeldi í fjölskyldum fer fram fyrir luktum dyrum heimilanna og undir ógnarvaldi ofbeldismanns um þöggun og er því erfitt sönnunar og þolendur lifa í ótta við ofbeldismann sinn. Minnstu vísbendingar um ofbeldi verða að hafa vægi í mati sýslumanna og dómara þegar teknar eru ákvarðanir um líf barna. Í forsjár- og umgengnismálum þar sem áhöld eru um öryggi barns í samskiptum við foreldri á réttur barnsins til öryggis og verndar frá ofbeldi að hafa afdráttarlausan forgang umfram skyldu hins foreldrisins til að stuðla að samskiptum barnsins við það foreldri sem beitir barnið eða nákomna ofbeldi. Það er óverjandi háttalag framkvæmdar- og dómsvaldsins að þvinga barn með óréttmætum úrskurðum, dagsektum eða öðrum lagatæknilegum aðferðum inn í aðstæður þar sem það er beitt hverskyns ofbeldi. Það er óbærilega þung krafa á þolendur ofbeldis, mæður og börn, að dómur vegna ofbeldis yfir aðila í forsjár- eða umgengnismáli sé skilyrði fyrir því að lögfest skylda dómara og sýslumanns til að meta ofbeldishættu sé virt. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til barnalaga sem varð að lögum er undirstrikað mikilvægi þess að litið sé á ofbeldi í víðum skilningi í deilum um forsjá eða umgengni. Sú krafa á þolendur ofbeldis að dómur vegna ofbeldis yfir aðila í forsjár- eða umgengnismáli sé skilyrði fyrir því að tekið sé tillit til ofbeldishættu er því ekki réttlætanleg. Í viðtali við sáttafulltrúa sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Fréttablaðinu þann 26. febrúar 2019 kemur meðal annars fram að málavinnsla sýslumanns í umgengnismálum varði um 600 börn á ári og að 58% mála ljúki með sátt. Gróft áætlað varða þau mál hjá sýslumanni sem ekki lýkur með sátt um 252 börn á ári. Til samanburðar má benda á að að samkvæmt svörum kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfs á árinu 2018 voru um 273 börn sem bjuggu á ofbeldisheimilum. Í gögnum sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kynnti fyrr á þessu ári kemur meðal annars fram að 16,4% barna hér á landi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Ofbeldi er helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi og hefur UNICEF þess vegna starfað ötullega að því að skapa byltingu fyrir börn á grunni breiðfylkingar fólks á Íslandi. Ofbeldi á börnum á aldrei að líðast og það er skylda stjórnvalda að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn frá ofbeldi.

02.10.2019 - 31.10.2019

Allir Íslendingar

Kolbrún Dögg Arnardóttir

Skráningar á listaÞað hafa skráð sig á listann.
Það hefur enginn skráð sig á listann ennþá.
Það hefur einn skráð sig á listann.