ÁSKORUN TIL REKTORS HÁSKÓLA ÍSLANDS, HÁSKÓLARÁÐS, SVIÐSFORSETA, FÉLAGS HÁSKÓLAKENNARA OG FÉLAGS PRÓFESSORA Án þess að það hafi verið kynnt markvisst fyrir háskólakennurum, þá hefur sú skipun komið frá Framkvæmdasýslu ríkisins að akademískir starfsmenn ríkisháskóla skuli sviptir einkaskrifstofum sínum og þeim gert að starfa í svokölluðum „sveigjanlegum, verkefnamiðuðum vinnurýmum,“ sem eru með öllu óboðleg akademískri starfsemi líkt og rannsóknir og reynsla erlendis frá sýna.. Þetta gildir ekki aðeins um nýbyggingar. Það er ekki aðeins ný aðstaða Heilbrigðisvísindasviðs og Menntavísindasviðs sem á að þvinga undir þetta fyrirkomulag. Þetta gildir einnig þegar eldri byggingar eru endurnýjaðar, til að mynda Árnagarður eftir að Hús íslenskunnar verður tekið í notkun. Jafnframt hefur starfsfólki Menntavísindasviðs verið tjáð á fundum með hollensku ráðgjafarfyrirtæki að ekki einu sinni föst skrifborð í opnu rými verði í boði, heldur þurfi í það minnsta hluti starfsfólks að leita sér að næsta lausa borði hverju sinni (svokallað hot-desking). Svona á smám saman að ráðast gegn kjörum háskólakennara, akademískum gildum og húsakosti Háskóla Íslands allt í senn. Þetta er stærsta einstaka kjaramál háskólakennara við ríkisháskóla frá upphafi og við þetta verður ekki unað. Stjórn Háskóla Íslands hefur brugðist í því að berjast gegn þessum illa ígrunduðu áformum stjórnvalda. Fræðasvið Háskóla Íslands hafa sömuleiðis brugðist en starfsfólk hefur verið látið verja miklum tíma og orku í þarfagreiningu sem bersýnilegt er ber að þeim brunni að hanna eigi verkefnamiðað vinnurými hvað sem hver segir. Haldnir eru fundir eftir fundi þar sem við erum ítrekað látin segja það sama: Við viljum einkaskrifstofur. Það er látið í veðri vaka að slíkt sé gamaldags hugsunarháttur á meðan staðreyndin er sú að við byggjum afstöðu okkar á rannsóknum og reynslu erlendis frá. Þetta er kjaramál og nú stendur upp á stéttarfélög háskólakennara að standa í lappirnar og setja í kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga ófrávíkjanlega kröfu um einkaskrifstofur fyrir aðjunkta I, lektora, dósenta og prófessora. Að sjálfsögðu er hægt að vinna eftir viðmiðum um sveigjanleg vinnurými þar sem það á við (til að mynda í kennslu) og góða nýtingu á rýminu en það má aldrei verða á kostnað þess rýmis sem gerir okkur kleift að sinna fræðimennsku og öðrum fjölbreyttum störfum akademískra starfsmanna með ábyrgum og skilvirkum hætti. Rannsóknir og reynslan sýnir að það er einkaskrifstofa sem hver og einn hefur full yfirráð yfir.. Ef háskólakennarar færu í verkfall yrðu ríkisháskólarnir óstarfhæfir og ekki yrði annað hægt en að ganga að þessari sjálfsögðu og ófrávíkjanlegu kröfu. Við förum fram á að Stéttarfélög háskólakennara gerist málsvarar félagsmanna og standi í lappirnar gagnvart ofríki stjórnvalda í þessu máli. Hið sama á við um yfirstjórn Háskóla Íslands. Hér með skorum við, undirrituð, á rektor Háskóla Íslands, Háskólaráð, sviðsforseta allra fræðasviða, Félag háskólakennara og Félag prófessora, að taka slaginn með okkur fyrir alvöru. Að standa sameinuð og sterk gegn ákvörðun sem byggð er á fáfræði og skammsýni. Það er ekki hægt að bjóða háskólakennurum upp á þá húsnæðisstefnu sem stjórnvöld hafa sett sér og við munum ekki láta hana yfir okkur ganga.
13.03.2023 - 31.05.2023
Arngrímur Vídalín Stefánsson