Undirskriftalisti

Responsive image

Aukum úrræði og styttum biðlista fyrir sjúklinga með endómetríósu

Undirskriftarlisti vegna stöðu sjúklinga með endómetríósu Endómetríósa (e. endometriosis) er ólæknandi og oft kvalafullur sjúkdómur sem orsakast af því að endómetríósu vefur (e. endometrium), álíkur legslímhúð, vex á ýmsum öðrum stöðum í líkamanum. Sjúkdómurinn getur valdið miklum sársauka og ekki síst ófrjósemi, en talið er að 30-50% þeirra sem þjást af endómetríósu glími við ófrjósemi. Þá er talið að um 10% þeirra sem fæðist með kvenlíffæri glími við endómetríósu. Vefsíða Endósamtakanna á Íslandi: https://endo.is Staða sjúklinga á Íslandi með endómetríósu er grafalvarleg. Eina leiðin til formlegrar greiningar í dag er með skurðaðgerð með kviðarholsspeglun (e. excision surgery), en meðal biðtími eftir greiningu er 7 ár. Það er einnig eina leiðin til að skera burt samgróninga og þar með auka líkur á að bæta lífsgæði einstaklinga sem þjást af endómetríósu. Margir notast við hormónalyf , sem eru oftast fyrsta meðferðarúrræðið, og/eða sterk verkjalyf til verkjastillingar. Þar til í nóvember 2021 var enginn vottaður sérfræðingur í sjúkdómnum starfandi á Íslandi, en þá hóf Jón Ívar Einarsson störf hjá Klíníkinni Ármúla. Jón Ívar er prófessor við Læknadeild Harvard Háskóla og er stofnandi deildar sem er sérhæfð í kviðsjáraðgerðum kvenna á Brigham and Women’s sjúkrahúsinu í Boston. Í 70-80% tilfella bætir áðurnefnd skurðaðgerð lífsgæði kvenna til muna, hægir á framgöngu sjúkdómsins og þar með líffæraskemmdum og minnkar líkur á ófrjósemi. Aðgerð við endómetríósu á Klínikinni í Ármúla kostar í dag 1,2 milljónir skv. verðlista Klínikarinnar, sem sjúklingar þurfa sjálfir að reiða fram. Í 1. grein laga um heilbrigðisþjónustu (2007 nr. 40 27. mars) á Íslandi segir: ,,Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, [lög um sjúkratryggingar], 1) lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.“ Í ljósi ofangreinds eru það skýlausar kröfur sjúklinga með endómetríósu að: 1. Heilbrigðisráðherra veiti Sjúkratryggingum Íslands umboð til samninga við Jón Ívar Einarsson/Klíníkina Ármúla, svo sjúklingar geti í fyrsta sinn hér á landi fengið viðeigandi meðferð í stað þess að vera einungis boðið upp á hormónameðferðir eða langa biðlista fyrir aðgerðir sem ekki eru framkvæmdar af vottuðum sérfræðingum. 2. Við taki sérstök deild sem hafi burði og bolmagn til að veita sjúklingum með endómetríósu viðeigandi meðferð, ásamt klínískum leiðbeiningum til að tryggja skilvirkari þjónustu, hvarvetna í heilbrigðiskerfinu. 3. Sjúklingar yngri en 15 ára hafi stað að leita á þar sem kvennadeild Landspítalans tekur ekki við þeim, en einkenni geta gert vart við sig um leið og viðkomandi byrjar á blæðingum. 4. Transfólk geti sótt viðeigandi þjónustu þar sem kynleiðréttingarferli læknar ekki endómetríósu. 5. Að skurðaðgerðir séu aðeins framkvæmdar af þeim læknum sem hlotið hafi viðurkennda þjálfun og vottun til slíkra aðgerða. Með undirskriftum okkar skorum við á heilbrigðisráðherra að verða við framangreindum kröfum. Það er ekki lengur boðlegt að sjúklingar með endómetríósu fái ekki lögbundna og nauðsynlega læknisaðstoð.

01.03.2022 - 18.03.2022

Allir Íslendingar

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir

Skráningar á listaÞað hafa skráð sig á listann.
Það hefur enginn skráð sig á listann ennþá.
Það hefur einn skráð sig á listann.